Lock iconRectangle 1Rectangle 2 + Rectangle 2 CopyShapeRectangle 1

Heilsumál

Bólusetningar

Eitt það mikilvægasta sem hægt er að gera áður en maður leggur af stað í ferðalag er að fá nauðsynlegar bólusetningar. Hvaða bólusetningar þú þarft að fá veltur á því til hvaða landa þú ert að fara. Næsta mál er svo einfaldlega að bóka tíma hjá Ferðavernd (535-7700).


 

Sjúkratryggingar

Nauðsynlegt er að fá ferðatryggingar ef ferðast er utan Evrópu.

Innan Evrópu gildir Evrópska sjúkratryggingakortið sem hægt er að nálgast í Tryggingastofnun á Laugarvegi 114.

Hægt er að sækja snjallsímaforrit með alls konar upplýsingum um Evrópska sjúkratryggingakortið fyrir iPhone og Android.

 

Til þess að fá sjúkratryggingar fyrir ferðalag utan Evrópu er best að hafa samband við tryggingafélagið sitt eða fjölskyldunnar og spurjast fyrir um ferðatryggingar þeirra.

Hér að neðan eru linkar inn á nokkur tryggingafélög og upplýsingar um ferðatryggingar þeirra:

Vörður

Tryggingamiðstöðin

VÍS

Sjóvá

 

 

Að forðast veikindi 

1. Athuga að vera með allar nauðsynlegar bólusetningar.

2. Þvo hendurnar vel fyrir hverja máltíð og nota spritt á hendurnar

3. Eftirfarandi matvæli ber að forðast:

 •    Götumat

 •    Ferskt grænmeti sem þvegið er upp úr vatni (athuga, aðeins í þeim löndum sem ekki má bursta sig upp úr kranavatninu)

 •    Mat sem gæti hafa verið geymdur lengi, t.d. tilbúin túnfisk/kjúklinga salöt á brauð

 •    Kebab eða annað kjöt sem hefur staðið lengi í hita

 •    Seigt kjöt, því það gæti verið gamalt

 •    Of lítið eldað kjöt, ekki panta steikina medium/rare

 •    Best er að borða það sem er vel eldað

4. Drekka nóg af vatni (vökvaskortur er tíður í heitum löndum)

5. Alltaf að rjúfa innsiglið á drykknum sínum sjálfur eða biðja þjóninn á veitingastaðnum um að gera það fyrir framan mann

6. Verja sig gegn bitum (setja á sig skordýravörn sem inniheldur mikið af DEET)


 

Það sem þarf úr Apótekinu

Við mælum með að tala við heimilislækni eða hjúkrunarfræðing hjá ferðavernd, til þess að fá góð ráð um hvaða lyf er gott að taka með í ferðalagið og lyfseðil fyrir þeim lyfjum sem ekki er hægt að fá lyfseðilslaust, t.d. malaríulyf, sýklalyf eða verkjalyf (fer eftir því sem á við að hverju sinni). Þessi listi er ekki tæmandi og er aðeins notaður til að gefa hugmynd um hvað er gott að taka með.

 

 •  Vægt sterakrem, t.d. Mildison -Notað við útbrotum, kláða og skordýrabitum

 •    Hitakrem, t.d. Deep Heat eða Sore no More -Notað við vöðvabólgu og verkjum sem koma oft vegna álags á líkamann. Mikil ganga og þungur bakpoki geta orsakað vöðvabólgu.

 •    Sólarvörn -Best er að hafa bæði UVA og UVB vörn í kreminu. Gott er að byrja á mjög sterkri sólarvörn, 50+ og vinna sig svo niður þegar búið er að venjast sólinni betur.

 •   Aloa Vera gel -Nauðsynlegt við sólbruna.

 •    Moskítóvörn -Þarf að innihalda sem mest af Deet (ath. ef ferðast er með börn er best að velja moskítóvörnina sem er sérmerkt fyrir börn og inniheldur ekki jafn mikið af Deet). Tíminn sem moskítóflugurnar stinga mest er við ljósaskipti á kvöldin og á nóttunni, en gott er að bera á sig líka á daginn.

 •    After Bite -Krem eða vökvi sem notaður er við kláða vegna skordýra- og moskítóbita. Náttúrulegu kremin hafa nýst okkur best. Þau fást í mörgum löndum og eru merkt Herbal Afterbite.

 •    Panodil eða Paratabs -Vægar verkjatöflur sem ekki þarf lyfseðil til að kaupa.

 •    Parkódín -Lyfseðlilsskyld lyf, sterkari verkjalyf sem gott er að hafa ef eitthvað kemur upp á.

 •    Íbúfen –Notað við bólgum og verkjum.

 •    Immodium -Notað til að stoppa niðurgang. Lyfið er ekki ætlað til að lækna matareitrun eða niðurgang, heldur einungis til að stoppa hann tímabundið, ef verið er að fara í flug, eða langt ferðalag liggur fyrir. Best er að hafa samband við lækni á hverjum stað fyrir sig og fá viðeigandi töflur til að lækna niðurganginn.

 •    Sýklalyf  -Lyfseðilsskyld lyf sem nauðsynlegt er að taka með ef að einhvers konar sýking kemur upp.

 •    Malaríulyf -Ef ferðast er til malaríusvæðis er malaríulyf nauðsynlegt. Lyfin eru lyfsseðilsskyld á Íslandi og mjög dýr. Þess vegna er oft gott að kaupa fyrsta skammtinn hér á landi og kaupa svo meira í því landi sem ferðast er til.

 •    Duft fyrir vökvaskort -Notað við vökvaskorti, gefur næringu.

 •    Sótthreinsunarspritt -Gott er að vera alltaf með sótthreinsunarspritt á sér og bera það reglulega á hendurnar.

 •    Plástrar

 •    Hælsærisplástrar -Blöðrur og sár myndast oft á fótunum vegna mikillar göngu og þá er gott að hafa meðferðis Hælsærisplástra eða Blistex.

 •    Sáraumbúðir, t.d. grisjur, lítil teygjubindi og fleira.

 

Ef veikindi koma upp

Þegar veikindi koma upp er nauðsynlegt að vera fljótur að bregðast við og átta sig á aðstæðum. Ef veikindin eru alverleg skal hafa samband strax við lækni. Það getur einning verið gott að hafa númerið hjá íslenska sendiráðinu í viðkomandi landi.